Forstjóri
Borghildur ErlingsdóttirForstjóriborghildur@hugverk.is

Einkaleyfi eru hreyfiafl nýsköpunar og vaxtar

Einkaleyfi Hreyfiafl

20. október 2025Einkaleyfi

Íslendingar eru skapandi og úrræðagóð þjóð, við eigum auðvelt með að hugsa út fyrir rammann og finna nýjar lausnir. Þó íslenskt efnahagslíf sé auðlindadrifið stendur nýsköpun á traustum grunni, við eigum öfluga háskóla, birtum mikinn fjölda vísindagreina og stöndum ágætlega hvað varðar menntun, rannsóknir, innviði og stofnanir. Þegar kemur að afurðunum: tækninýjungum, hugverkavernd, vöruþróun og útflutningi á þekkingu, erum við hins vegar ekki að nýta möguleika okkar til fulls og stöndum öðrum Norðurlandaþjóðum langt að baki.

Eitt af þeim sviðum þar sem sóknarfæri eru mikil er hugverkavernd og þá ekki síst vernd uppfinninga með einkaleyfum.

Ísland neðst Norðurlandanna í 24. sæti nýsköpunarvísitölu WIPO

Nýsköpunarvísitala Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO Global Innovation Index) er byggð á 78 mælikvörðum sem teknir eru saman af fjölmörgum alþjóðlegum stofnunum og hefur skapað sér sess sem einn helsti alþjóðlegi mælikvarðinn á aðstæður til nýsköpunar og afrakstur hennar í heiminum. Í nýjustu nýsköpunarvísitölunni er Ísland í 24. sæti af 139 ríkjum. Það er ágætis árangur fyrir fámenna þjóð en staða okkar hefur farið versnandi undanfarin ár og er lakari en allra hinna Norðurlandanna. Svíþjóð er í 2. sæti, Finnland í 7. sæti, Danmörk í 9. og Noregur í 20. sæti. Þegar horft er sérstaklega til hversu góðar aðstæður eru nýsköpunar erum við í 20. sæti en hins vegar aðeins í 29. sætinu fyrir afrakstur nýsköpunar. 

40-60 íslenskar einkaleyfisumsóknir á ári

Annar mikilvægur mælikvarði á stöðu nýsköpunar og hugverkaverndar er einkaleyfavísitala Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO Patent Index). Samkvæmt henni bárust EPO 62 íslenskar einkaleyfisumsóknir árið 2024, sem samsvarar um 159 umsóknum á hverja milljón íbúa. Það er nokkur aukning frá 42 umsóknum árið 2023 en síðasta áratuginn hefur fjöldinn sveiflast milli 40 og 60 umsókna á ári og varanleg fjölgun hefur ekki verið merkjanleg. Í þessum tölum stöndum við hinum Norðurlöndunum langt að baki og erum á svipuðum stað og lönd Evrópusambandsins að meðaltali.

  • Svíþjóð: 490 umsóknir á hverja milljón íbúa
  • Danmörk: 440 umsóknir á hverja milljón íbúa
  • Finnland: 420 umsóknir á hverja milljón íbúa
  • Noregur: 170 umsóknir á hverja milljón íbúa
  • Ísland: 159 umsóknir á hverja milljón íbúa
  • Evrópusambandið:150 umsóknir á hverja milljón íbúa

Ísland stendur best Norðurlandanna í heilbrigðistækni en síst í endurnýjanlegri orku

Niðurstöður WIPO og EPO eru í samræmi við niðurstöður nýrrar skýrslu um einkaleyfisumsóknir íslenskra fyrirtækja síðastliðin 20 ár sem var unnin fyrir Hugverkastofuna og verður kynnt á Nýsköpunarþingi 30. október næstkomandi. Meginniðurstaða skýrslunnar er að þrátt fyrir góðan mannauð, öflugt vísindasamfélag og mikla sköpunargleði, standa íslensk fyrirtæki norrænum fyrirtækjum að baki í fjölda einkaleyfisumsókna miðað við mannfjölda. Staðan er þó mjög mismunandi eftir geirum. Ísland stendur vel og best Norðurlandanna í fjölda einkaleyfisumsókna á sviði heilbrigðistækni og þar er stoðtækjafyrirtækið Össur fremst meðal jafningja. Það kemur hins vegar mjög á óvart að á sviði endurnýjanlegrar orku eiga íslensk fyrirtæki nánast engar einkaleyfisumsóknir undanfarin 20 ár og þar stöndum við langverst Norðurlandanna. Þær uppgötvanir sem hér hafa verið gerðar síðustu áratugi á sviði jarðvarma og annarrar endurnýjanlegrar orku virðast því ekki hafa varðar með einkaleyfisumsóknum.

Fjölmargar öflugar íslenskar fyrirmyndir

Einkaleyfi eru ekki bara skírteini sem hanga uppi á vegg, þau tryggja uppfinningamönnum og fyrirtækjum einkarétt á uppfinningum og eru hreyfiafl nýsköpunar og efnahagslegs vaxtar. Þau veita fyrirtækjum og fjárfestum öryggi til að fjárfesta í rannsóknum og þróun með því að tryggja að uppfinningar séu ekki afritaðar. Með öðrum orðum: einkaleyfi breyta góðum hugmyndum í raunveruleg verðmæti.

Við eigum þegar fjölmörg öflug fyrirtæki sem byggja á einkaleyfavernd. Þessi fyrirtæki nota öll einkaleyfi sem verkfæri til að stuðla að vexti og alþjóðlegri samkeppnishæfni. Þau skapa verðmæt hátæknistörf, laða að fjárfestingu og styrkja ímynd Íslands sem nýsköpunarlands.

Össur stendur fremst meðal íslenskra jafningja á sviði hugverkaverndar. Fyrirtækið er leiðandi í heiminum á sviði stoðtækni og það íslenska fyrirtæki sem leggur inn langflestar einkaleyfisumsóknir.
Össur stendur fremst meðal íslenskra jafningja á sviði hugverkaverndar. Fyrirtækið er leiðandi í heiminum á sviði stoðtækni og það íslenska fyrirtæki sem leggur inn langflestar einkaleyfisumsóknir.
JBT Marel, eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins sem er leiðandi á heimsvísu í matvælatækni, hefur áratugum saman byggt starfsemi sína á nýsköpun og hugverkavernd. Fyrirtækið á fjölda einkaleyfa sem vernda tæknibúnað sem notaður er í matvælavinnslum um allan heim.
JBT Marel, eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins sem er leiðandi á heimsvísu í matvælatækni, hefur áratugum saman byggt starfsemi sína á nýsköpun og hugverkavernd. Fyrirtækið á fjölda einkaleyfa sem vernda tæknibúnað sem notaður er í matvælavinnslum um allan heim.
Carbfix hefur þróað og fengið einkaleyfi á einstakri aðferð við að binda koltvísýring í bergi til að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Carbfix hefur þróað og fengið einkaleyfi á einstakri aðferð við að binda koltvísýring í bergi til að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Kerecis er fyrsti einhyrningur Íslands, (nýsköpunarfyrirtæki sem selt er fyrir meira en milljarð Bandaríkjadala). Verkun á fiskroði til að nota megi það til að meðhöndla sár er vernduð með fjölda einkaleyfa og danska félagið Coloplast sem keypti fyrirtækið árið 2023 mat verðmæti einkaleyfa fyrirtækisins ein og sér á yfir milljarð Bandaríkjadala við yfirfærslu á eignarhaldi þeirra til móðurfélagsins.
Kerecis er fyrsti einhyrningur Íslands, (nýsköpunarfyrirtæki sem selt er fyrir meira en milljarð Bandaríkjadala). Verkun á fiskroði til að nota megi það til að meðhöndla sár er vernduð með fjölda einkaleyfa og danska félagið Coloplast sem keypti fyrirtækið árið 2023 mat verðmæti einkaleyfa fyrirtækisins ein og sér á yfir milljarð Bandaríkjadala við yfirfærslu á eignarhaldi þeirra til móðurfélagsins.
Svefnrannsóknafyrirtækið Nox Medical háði harða baráttu við erlent stórfyrirtæki um uppfinningu sína sem varin er einkaleyfi og hafði að lokum fullan sigur.
Svefnrannsóknafyrirtækið Nox Medical háði harða baráttu við erlent stórfyrirtæki um uppfinningu sína sem varin er einkaleyfi og hafði að lokum fullan sigur.
Lauf Cycles hefur byggt upp sterkt vörumerki á grunni einkaleyfis á hjólagaffli með innbyggðri fjöðrun og fleiri einkaleyfum á tækninýjungum fyrir reiðhjól.
Lauf Cycles hefur byggt upp sterkt vörumerki á grunni einkaleyfis á hjólagaffli með innbyggðri fjöðrun og fleiri einkaleyfum á tækninýjungum fyrir reiðhjól.
Hampiðjan sem á 90 ára sögu að baki sýnir að eldri fyrirtæki geta verið mjög öflug nýsköpunarfyrirtæki. Fyrirtækið á fjölda einkaleyfa sem vernda nýjungar í veiðarfæratækni.
Hampiðjan sem á 90 ára sögu að baki sýnir að eldri fyrirtæki geta verið mjög öflug nýsköpunarfyrirtæki. Fyrirtækið á fjölda einkaleyfa sem vernda nýjungar í veiðarfæratækni.

Þörf á stefnumótun og markvissum aðgerðum

Fjöldi einkaleyfa eða einkaleyfisumsókna segir ekki alla söguna en  segir þó mikið um það hversu vel við nýtum þekkingu sem verður til við rannsóknir og þróun til að skapa verðmæti. Mikilvægt er að tryggja að fleiri íslensk fyrirtæki fylgi þessari leið.

Nýsköpun er lífæð nútímahagkerfa og hugverkavernd er lífæð nýsköpunar. Ríki sem skara fram úr í nýsköpun eru nær undantekningarlaust ríki þar sem stjórnvöld leggja áherslu á vernd hugverka með stefnumótun og markvissum aðgerðum. Ísland hefur alla burði til að fylgja í kjölfarið, en til þess þarf að efla vitund, stuðning og stefnumótun í kringum hugverk og einkaleyfi. Næsta Össur eða Kerecis er líklega þegar orðið til og öflug hugverkavernd mun hjálpa því að ná árangri á heimsvísu.

Borghildur Erlingsdóttir er forstjóri Hugverkastofunnar. Hún mun flytja erindi um einkaleyfisumsóknir íslenskra fyrirtækja á Nýsköpunarþingi 2025 30. október.