Hafnfirðingar halda með Hafnfirðingum – Barbara kaffibar er vörumerki mánaðarins

25. september 2025Vörumerki
Í haust opnaði nýtt kaffihús á Strandgötunni í Hafnarfirði. Katla Karlsdóttir, Sigurður Halldór Bjarnason og Pétur Orri Ingvarsson hafa umbylt gamla Súfistanum og opnuðu þar Barböru kaffibar sem lítur út fyrir að hafa alltaf verið þar. Barbara kaffibar er skráð vörumerki mánaðarins hjá Hugverkastofunni.
Við náðum í Kötlu þar sem hún var í hjólatúr um London með Sigga, manni sínum og viðskiptafélaga. Hún segir að stefna þeirra sé að Barbara sé einhvers konar kaffihús plús og samkomustaður fyrir Hafnfirðinga. „Þetta á að vera svona staður til að hygge sig, eins og Daninn segir, hvenær dags sem er,“ segir hún. „Við opnum snemma og lokum seint og stemningin breytist eftir tíma dagsins. Við erum dæmigert kaffihús þar sem hægt er að fá kaffi og með því en við bjóðum líka upp á sérsmurðar samlokur ásamt meiri mat líkt og kjötbollur, lasagna og snitsel og svo auðvitað bjór, vín og kokteila.“

Hornið á Mánabar, Einar rakari og Súfistinn
Hún segir að þau hafi lengi gengið með það í maganum að gera eitthvað til að efla samfélagið og menninguna í Hafnarfirði og þegar þau hafi rekið augun í frétt um að húsnæði Súfistans hafi verið selt hafi þau bókstaflega stokkið á nýja eigandann og tryggt sér húsnæðið. Hugmyndin hafi svo þróast jafnóðum og þau unnu að endurbótum á staðnum. Barbara er í elsta steypta húsi Hafnarfjarðar og er staðsett við Strandgötuna, beint á móti Bæjarbíói. Katla segir að merkileg saga hússins hafi haft mikil áhrif á þróun viðskiptahugmyndarinnar en þar var á árum áður m.a. starfræktur Mánabar sem gerður var ódauðlegur í flutningi hafnfirska tríósins HLH.
„Ég sá hana á horninu á Mánabar, hún minnti mig á Brendu Lee.“
Einar rakari, sem sá um að snyrta hár ansi margra Hafnfirðinga á sínum tíma, starfrækti þarna rakarastofu og svo var Súfistinn starfræktur í húsinu í 31 ár, allt frá árinu 1994. Þannig að það má segja að saga hússins sé samofin sögu bæjarins.
Kolvetni og kósýheit
Smám saman mótaðist þannig mjög skýr hugmynd um að nýja kaffihúsið ætti ekki bara að vera kaffihús heldur samfélag og hluti af menningu bæjarfélagsins. „Okkur finnst Hafnarfjörður virkilega hafa blómstrað undanfarin ár með t.d. viðburðum í Bæjarbíói, jólaþorpinu og Hjarta Hafnarfjarðar en okkur finnst hafa vantað stað sem væri opinn á kvöldin sem byði upp á kolvetni og kósýheit,“ segir Katla. Hún segir að þegar hún og hafnfirsku vinkonur hennar hafi ætlað að hittast á kvöldin hafi þær þurft að fara í annað bæjarfélag, sem sé ekki nógu gott. Barbara eigi samt ekki að vera djammstaður, allavega ekki fyrir læti, heldur meira fyrir þægilegt djamm, spjall og vín. Í því samhengi nefnir hún að það hafi lengi loðað við okkur Íslendinga að það sé í fínu lagi að fara út um helgar og drekka þrjátíu bjóra en það sé ekki í lagi að fara út á virkum degi og fá sér þrjá. Á Barböru á hins vegar að vera hægt að fá sér þrjá bjóra á virkum degi og fara svo bara heim og elda matinn.

Gamlir og góðir innanstokksmunir valdir af kostgæfni
Katla er með bakgrunn í markað- og auglýsingabransanum og kennir neytendahegðun við HÍ. Hún þekkir það því vel hversu mikilvægt það er að skapa sterkt vörumerki. Vörumerki sé ekki bara nafn og útlit á merki heldur þurfi að huga að heildarupplifun viðskiptavina og öllum smáatriðum. Hún segir að þau hafi t.d. valið alla innanstokksmuni af mikilli kostgæfni og þeir hafi þurft að líta út fyrir að vera a.m.k. 50-60 ára gamlir og margir verið keyptir á nytjamörkuðum. Það eigi við um allt frá húsgögnum að matseðlum og skiltum fyrir klósettin sem hún segir þau hafa leitað lengi að og loks pantað frá Bandaríkjunum. Þá hafi þau fengið Rakel Tómasdóttur til að hanna fyrir sig útlit vörumerkisins, þar á meðal nýja leturgerð frá grunni sem þau noti í merkið og allt markaðsefni. Markmiðið sé að byggja upp sterkt vörumerki sem sé ekki takmarkað af rekstri kaffibars og megi í framtíðinni nota fyrir tengda vöru og þjónustu.

Notuðu app sem fólk notar til að velja nöfn á börnin sín
Katla segir að þau hafi snemma ákveðið að kaffihúsið ætti að bera kvenmannsnafn en þau hafi vandað sig mikið við valið og meðal annars notað app sem fólk almennt notar annars til að velja nöfn á börnin sín. Barbara hafi snemma dúkkað upp í appinu og þegar þau þrengdu valið út frá ýmsum forsendum hafi það komið aftur og aftur upp og varð að lokum fyrir valinu. Þeim finnst það passa vel við sögu hússins og við hugmyndina um hafnfirskan samkomustað. Skráning nafnsins sem vörumerki sé svo einfaldlega liður í að gera hlutina vel frá A til Ö og að hugsa til langs tíma. „Við viljum einfaldlega tryggja að við eigum merkið,“ segir Katla.
„Það gengur bara fáránlega vel“
En hvernig gengur svo? „Það gengur bara fáránlega vel og viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum, enda halda Hafnfirðingar með Hafnfirðingum. Það hefur varla verið laust borð frá því að við opnuðum 14. ágúst.“ segir Katla. Hún segir að þau hafi leyft fólki að fylgjast með framgangi breytinga á húsinu á samfélagsmiðlum allt frá því að þau hófust handa við að umbylta húsnæðinu í vor. Það hafi hitt í mark og þannig hafi þeim tekist að skapa ákveðið samfélag um staðinn, sem sé akkúrat það sem þau vilji gera. Þau hugsi til langs tíma og líti ekki bara á Barböru sem venjulegt kaffihús heldur sem lífsstíl.

Vörumerki V0138500 skráð 15. september
Sótt var um skráningu orðmerkisins Barbara kaffibar í maí 2025 það var birt til skráningar 15. júlí og skráð 15. september síðastliðinn í flokkum 12, 30, 32, 33 og 43, m.a. fyrir veitingaþjónustu, veitingavagna, kaffi, samlokur, vöfflur, bjór og vín.
Starfsfólk Hugverkastofunnar velur skráð vörumerki mánaðarins
Skráð vörumerki mánaðarins er unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt skráð vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýskráðra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Skráð vörumerki mánaðarins er vörumerki með skýr sérkenni, gott aðgreiningarhæfi og skemmtilega sögu að baki sér.
